Home

  • Af framkvæmdum

    Á meðan við njótum þess að vera í fríi er allt á fullu í Blönduhlíðinni. Þar hafa verið píparar, rafvirki, sögunarmenn, gröfumaður og smiður.

    Nú er nánast búið að brjóta upp allt þvottahúsgólfið. Komið hefur í ljós stærðarinnar tjörn undir húsgrunninum og mygla fylgir þessari tjörn. Ekki beint skemmtilegar fréttir en þær kalla á verulegar lagfæringar við dren. Við vitum enn ekki hvernig þetta mun fara almennilega en það er búið að vera að rakamæla hjá okkur í dag.

    Gröfumaðurinn kom líka og mokaði frá glugganum niðri svo nú er komin hola af stærðinni 3×3 metrar í garðinn. Á bílaplaninu er haugur af möl.

    Sem betur fer var enginn pollur þarna megin en það er samt ljóst að það er eitthvað mikið sem þarf að laga á neðstu hæðinni okkar.

  • Hjónin í Brauðhúsinu

    Það fer afskaplega vel um okkur í fríinu. Brauðhúsið er yndislegur staður að dvelja í, góður andi og hlýtt og notalegt.

    Krakkarnir eru í koju í stóra húsinu og svefnherbergisgluggarnir okkar eru hver á móti öðrum. Það er hægt að kalla á milli. Við höfum að vísu ekki opnað gluggana því leðurblökurnar vilja næði á daginn til að hvíla sig á bakvið hlerana.

    Frúin í Brauðhúsinu fór auðvitað beint í að kaupa Cidru (brut) og brebis. Það er bæði ostur og jógúrt út brebis í ísskápnum og svo er stutt í bakaríið eftir glænýrri bagettu. Það eru ljúfir dagar framundan.

    Það er líka dýralíf í Brauðhúsinu, fournillnum. Fjölmargar köngulær eiga sér þar bústað og ég hef dundað mér við að sópa vef úr hornum. Það er ein risastór sem býr á bitanum yfir eldavélinni, hún er líkast til svona hrifin af kaffiilminum sem stöðugt leggur þaðan.

  • Tómur tankur

    Nú munaði mjóu. Þegar 114 km eru eftir til Lande Basse kom í ljós að tankurinn var orðinn tómur.

    Við vorum reyndar á bensínstöðinni þegar þetta kom í ljós en við tókum sénsinn og keyrðum 20 km til viðbótar á næstu stöð því það var engin leið að komast aftur á dælurnar nema keyra á móti umferð.

    Þetta voru æsilegir 20 km en þetta hafðist. Nú er stutt eftir og tankurinn fullur.

  • Land undir fót

    Nú, mitt í öllum framkvæmdum, erum við á leið til Bretagne í páskafrí. Fljúgum til Parísar í kvöld og ætlum að gista þar í nótt. Á morgun leigjum við bíl og keyrum á skagann, þangað sem Þórdís okkar er komin nú þegar í páskafríið sitt.

    Í morgun komu Gestur og Bjarnþór og við löbbuðum í gegnum næstu skref með þeim. Infrarauði saunaklefinn er á framkvæmdaplani!

  • Úrslit Gettu betur

    Þá er keppninni lokið. MH sigraði MR í æsispennandi úrslitakeppni í gær. Okkar allra besta Áslaug stóð sig frábærlega og var okkur og sjálfri sér til sóma.

    Það er sárt að tapa en næsta verkefni bíður núna ungu konunnar, nefnilega stúdentsprófin.

  • Ofnarnir út

    Landslið pípara var statt hérna í dag og það var heljarinnar hamagangur. Þeir enduðu á að taka út alla pottjárnsofnana niðri, saga þá í sundur og bera þá út.

    Ekki nóg með að ofnarnir voru teknir úr húsinu, heldur voru þeir líka fjarlægðir af lóð og settir í förgun.

    Stóru rörin sem voru í loftinu fóru sömu leið.

  • Jafndægur á vori

    Það kemur í dag, vorið, enda vorjafndægur í dag. Loksins, loksins sagði einhver einhvern tímann. Á mínu heimili hefur verið beðið lengi eftir þessum degi.

    Það var greinilegt í morgun þegar ég fór í November Project uppi í Háskóla að vorið var á leiðinni. Á meðan ég hljóp um háskólasvæðið og gerði mínar hefðbundnu æfingar (framstig, ladybug og allt í einni ferð) birti hratt og örugglega og áður en við vissum af var orðið albjart. Tröppurnar voru líka í því ástandi að hægt var að hlaupa þær upp og niður án þess að eiga á hættu að detta.

    Veðrið var svo ljúft í morgunsárið að sumir fóru úr jökkunum á æfingunni og voru ýmist á peysu eða bol. Ég var ekki í þeim hópi en það styttist í það hjá mér. Ég finn það á öllu.

  • Umbrotatímar

    Berserkir komu hingað í morgun og byrjuðu að brjóta og bramla. Nú verður ekki aftur snúið.

    Skorsteinninn er farinn úr þvottahúsinu og það er komið nýtt dyraop í herbergið hennar Þórdísar. Allt lítur þetta vel út en það er auðvitað mikið uppbyggingarstarf framundan.

    Nú þurfum við að fletta flísunum af þvottahúsgólfinu og á morgun koma píparar að taka þá ofna sem eftir eru.

    Parketið er á útleið og panellinn sömuleiðis. Þetta er allt að koma. Eða reyndar að fara.

  • Bókasýning í London framundan

    Bókamessan í London hefst á morgun og við hjá RLA erum auðvitað þar. Ég flaug til London í morgun og hef nú eytt deginum hér í borginni við að stilla upp í Olympia.

    Til þess að komast inn í sýningarhöllina, Olympia, þurfti ég að fjárfesta í forláta gulu vesti. Sýningarsvæðið er framkvæmdasvæði og enginn má fara þangað inn nema í svona fínu vesti. Ég var með prjónana með mér því mér datt í hug að mögulega þyrfti ég að bíða eftir einhverju. Það reyndist auðvitað vera þannig og ég sat og prjónaði í gula vestinu mínu.

    Vorið er annars komið aðeins lengra hér í borginni en heima. Kirsuberjablómstur eru á trjánum og alls konar önnur tré blómstra, sum þeirra ilma meira að segja. Það er samt frekar grátt og á morgun er spáð úrhellisrigningu. Það er allt í góðu því ég ætla að vera inni á messu alla daga.

  • Baldur er kominn með freknur

    Það er ekki fyrr kominn mars fyrr en rauðhærði fjölskyldumeðlimurinn, Baldur Atli, er kominn með ógrynni af freknum. Í fyrra tók það allt sumarið að fá nokkrar freknur en nú er þetta strax komið í gang.

    Það er ekki ólíklegt að litli snáðinn verði eins og Pétur afi sinn, rauðhærður og mjööög freknóttur. Sjálf fæ ég mikið af freknum, en ég byrjaði ekki að fá þær fyrr en á unglingsárum. Una er spæld að fá ekki freknur en hún verður súkkulaðibrún á núll einni.