Home

  • Kaldur apríl

    Apríl er grimmastur mánaða og mikið hefur verið kalt síðustu daga. Baldur hefur verið úti að leika, harðneitar að fara í úlpu en kemur svo grátandi inn af kulda. Hann er með varaþurrk og kuldaþurrk en svo er hann um leið sólbrunninn á kinnunum og kominn með heilan helling af freknum.

    Una hefur verið rólegri í útiverunni. Hún er svolítið kvefuð en hefur alveg náð upp fyrri rútínu eftir fríið. Hún les alla morgna í fimmtán mínútur og er farin að læra að kóða í tölvunni.

    Við söknum dálítið vorsins í Frakklandi. Þar týndi Una falleg blóm og Þórdís var svo góð að skreyta hárið á henni fallega með blómunum.

  • Fréttir af framkvæmdum: dren

    Nú er orðið ljóst að við þurfum að skipta út dreninu í kringum húsið, okkar megin. Drenið er kolrangt langt, rörin liggja á hliðinni og liggja að auki ekki nógu djúpt. Svo er ekki drendúkur yfir þeim.

    Við höfum haft pípara hjá okkur að skoða málin og í drenmyndatöku í dag fannst brunnur á bílaplaninu sem við höfðum ekki hugmynd um. Drenið á að renna í gegnum þennan brunn og út í götu en vandinn er að drenið hallar í vitlausa átt. Það hallar frá götu og inn í garð.

    Til að bæta gráu ofan á svart kemur klóakrörið inn í þennan sama brunn og fyrrnefnt bakflæði veldur því að klóakið flæðir inn í rörið og þar með inn í garðinn, inn í yfirfullt drenrörið og þaðan undir húsið. Hressandi, ekki satt?

    Þetta þarf auðvitað að laga og við förum í það núna að skipta um drenið. Óvænt útgjöld en við verðum að klára þetta og best að gera það á meðan allt er í rúst hvort eð er.

    Góðu fréttirnar eru þær að úr því að klóakrörið liggur beint út úr húsinu, þá liggur það ekki i gegnum alla gólfplötuna eins og við óttuðumst. Ef það hefði verið raunin hefðum við þurft að brjóta allt gólfið til að laga klóakið.

  • Chartres, Hjartrósarborg

    Á leiðini frá Bretagne til stoppuðum við í Chartres sem er um 80 km frá París. Við keyrðum í einum rykk frá Lande Basse til Chartres, það eru tveir og hálfur tími. Samkvæmt Guide vert frá Michelin er Hjartrósarborg þriggja stjörnu stopp, en það þýðir að vegfarendur eigi absolút að leggja leið sína þangað. PG heldur mikið upp á borgina og það er gaman að tala um hana við hann.

    Það er langt síðan við höfum komið þangað, meira en 20 ár og þar með var staðurinn kominn í fyrningarnar. Við komum við í Chartres þegar við vorum á ferð í Frakklandi með Kavos árið 2002, en þá stoppuðum við í Bretagne og keyrðum svo niður til Bordeaux. Komum líka við í Cognac í þeirri ferð (fórum í koníakslestina frægu) og stálum lykli af hótelherbergi.

    Núna vorum við á ferð eftir hádegi á mánudegi núna og staðurinn var steindauður. Allar búðir lokaðar og nánast allir veitingastaðir. Við fundum veitingastað alveg upp við kirkjuna guðdómlegu sem var með service allan daginn og fengum okkur síðbúinn hádegismat sem var mjög fínn. Svo héldum við í kirkjuna sem er svo dásamlega fögur með fallegustu og stærstu rósettum sem fyrirfinnast.

    Það er skrítið til þess að hugsa að meginhluti kirkjunnar var byggður rétt eftir árið 1000 og stendur kirkjan á grunni fimm kirkna sem voru þarna á undan. Ég veit ekki hvort krökkunum hafi þótt þetta jafn merkilegt og mér en við vorum að minnsta kosti sammála um að kirkjan í Chartres hefði átt að bjóða spilastokka til sölu með rósettumyndum á bakhliðinni. Við hefðum sannarlega keypt slíkan spilastokk, skítakalls-meistararnir sem við erum.

  • Af hverju og hvernig?

    Baldur er spurull þessa dagana og það er gaman að ræða við hann um alla hluti. Mest er hann að spyrja af hverju hitt eða þetta er svona eða hinsegin en hann spyr samt líka hvernig hinir og þessir hlutir eru búnir til. Kannski verður hann einhvers konar verkfræðingur eða hönnuður í framtíðinni.

    Brot af spurningum síðustu daga: Hvernig býr maður til stól, hvernig bý ég til páskaegg, hvernig býr maður til rennibraut, hvernig bý ég til tröppur, hvernig geri glas og bolla, hvernig bý ég til miða, hvernig bý ég til límmiða, hvernig býr maður til lím?

    Og hvernig býr maður eiginlega til límmiða? Ég viðurkenni að þarna stóð ég á gati. Ég þarf að komast að því hvernig límmiðar eru búnir til.

  • Örsaga úr stórmarkaði

    Í einni innkaupferðinni í páskafríinu sýndum við krökkunum frosnar froskalappir. Þær minntu svolítið á frosinn fisk og voru frekar óspennandi.

    Una gretti sig yfir þeim en Baldur tók pokann og skellti honum í innkaupakerruna. Þegar við sögðum honum að froskalappir væru kjöt og að þess vegna borðuðum við þær ekki, þá varð hann eitt spurningarmerki.

    “Já, en við borðum eðlu Júróvisjón,” sagði hann undrandi á svip.

    Hvernig er hægt að vera svona mikið krútt?

  • Páskasardínur og Jesú úr brauðhúsinu

    Á þessum skínandi fína páskasunnudegi drukkum við kaffið úti í sólinni. Himinninn var heiðblár og ef við sátum í skjóli, þá var þetta eins og fínasti sumardagur. Kaffið var ljómandi gott.

    Á tilsettum tíma, alveg samkvæmt veðurspánni, byrjaði að rigna. Sem betur varði rigningin stutt en þá vorum við einmitt á leið í bakaríið. Baldur fór hjólandi, auðvitað, en við hin löbbuðum.

    Það var röð af heimamönnum í bakaríinu og við keyptum bæði pain au chocolat og croissant en við keyptum líka funheitar bagettur úr ofninum. Þær voru ennþá volgar þegar við komum heim og fengum okkur páskadagsbrunchinn í sólstofunni.

    Jesú úr brauðhúsinu, sem hefur dvalið í sólstofunni undir laki síðan framkvæmdir á brauðhúsinu hófust, var sviptur lakinu og skreyttur fjögurra blóma páskalilju í tilefni dagsins, páskalilju sem Una fann einmitt á leið í bakaríið og tók með sér heim. Við fengum okkur súkkulaðisardínur í desert.

  • Páskar á laugardegi

    Hér í sveitinni eru hlutnirnair stundum aðeins öðruvísi. Þess vegna földum við páskaeggin í garðinum í dag, og fundum þau öll að sjálfsögðu líka.

    Páskamaturinn var líka á dagskrá í dag og bragðaðist dásamlega. Eftir matinn lágum við á meltunni, borðuðum páskaegg og spiluðum auðvitað. Svo fórum við og gengum við vatnið.

    Málshættirnar voru:

    • Sjaldan veldur einn þá tveir deila
    • Allt bíður síns tíma
    • og einn annar sem við munum ekki í svipinn hver var

    Ég á eftir súkkulaðisardínuna mína, þessa sem ég keypti í St. Malo. Mig grunar líka að amma hafi keypt lítil egg og jafnvel nokkrar sardínur til að leita að hér innanhúss á morgun, páskadag.

  • Dýragarðurinn í Pleuguneuc

    Þegar Áslaug og Þórdís voru litlar fórum við alltaf með þær í dýragarðinn í La Bourbansais sem er hérna rétt hjá. Garðurinn er í afar fögru umhverfi, garðarnir eru fallegir og í garðinum miðjum er sérlega glæsileg höll. Una fór þegar hún var eins árs en svo höfum við ekkert farið í garðinn. Síðustu skiptin sem ég hef komið (tvisvar með Unu og Baldur) hefur verið hávetur og lítið gaman að fara í dýragarð.

    Í dag var veðrið gott og við skoðuðum allan garðinn. Dýrin eru eins og það eina sem vantaði núna var að gíraffarnir væru úti í kastalagarðinum við undirleik endurreisnartónlistar. Það er mögnuð sjón. Þótt þetta atriðið vantaði þá var upplifunin mjög skemmtileg og nú kom sér vel að hafa fjárfest í kíkjum. Við Kristján vorum eins og japanskir ferðamenn með kíkjana okkur en það fór líka fátt framhjá okkur í garðinum.

    Tígrisdýrin voru flottust. Það var samdóma álit okkar allra. En þessi björn hérna var líka ansi nettur.

  • Tveir topplistar á Bretagne, í engri sérstakri röð

    Listinn yfir það sem maður lætur ofan í sig einkennist af vörum úr sauðamjólk en ég er sérlegur aðdáandi þeirra.

    • Cidre
    • Brebis ostur
    • Brebis skyr
    • Baguette
    • Croissant

    Seinni listinn er skemmtilegri en hann dekkar það sem er gaman að gera saman sem fjölskylda í fríi

    • Borðspil: kleppari, skítakall og kankan. Öll börnin eru dugleg að spila.
    • Hlaup: 6 km hlaup tvisvar sinnum (Kristján og Þórdís fóru líka einu sinni 12 km).
    • Kaffidrykkja: Þórdís er mjög dugleg að drekka kaffi og kemur í heimsókn í brauðhúsið og við fáum okkur bolla saman.
    • Út að ganga með hljóðbók: Við stelpurnar förum hring hérna í sveitinni, gjarnan með hljóðbók í eyrunum en erum samt saman.
    • Bogfimi: Erum ansi efnileg og eigum bæði boga og örvar sem við keyptum fyrir tíu árum síðan. Bættum skotmarki við safnið í þessari ferð. Týnum reyndar stundum örvunum en það kemur ekki að sök.
    • Hjólreiðar: Baldur er orðinn mjög góður að hjóla. Hann er á gömlu hjóli sem Áslaug notaði líka hérna þegar hún var á hans aldri. Við tökum hjólið með okkur í skottið og Baldur hjólar um skóginn, meðfram kanalnum og niðri á vatni. Við hin löbbum með honum.
  • Heimsókn í sjóræningjabæ

    Við nýttum góða veðrið í dag til þess að heimsækja St. Malo. Það er mjög fallegur bær hérna fyrir norðan okkur, liggur að sjó og er umkringdur borgarmúrum. Gamli bærinn liggur intra muros.

    Við löbbuðum út í eyju og þurftum að hraða okkur til baka til þess að ná yfir á þurru. Það flæddi mjög hratt að og það lokaðist fyrir stíginn út í eyjuna. Vörðurinn passaði að allt færi vel fram og að gestir næðu yfir eða biðu í eynni. Að vísu var ein kona sem fór úr buxunum og gekk yfir, vatnið náði henni upp á mið læri og þetta hefði getað farið illa, en hún náði yfir við illan leik og vörðurinn var sannarlega ekki ánægður.

    Skrifað í sandinn, eyjan í baksýn

    Um kvöldið snæddum við á creperíu sem var líka cidrólógía. Við fengum okkur galettu í aðalrétt, crepu í eftirrétt og auðvitað drakk ég cidru með.

    Í St. Malo gerist hin dásamlega bók All the Light You Cannot See og samnefndir þættir eru teknir þarna. Gaman að koma í bæinn eftir að hafa lesið bókina. Ég hef reyndar bara horft á fyrsta þáttinn og varð fyrir smá vonbrigðum, en það er líkast til af því að bókin er svo góð.