Home

  • Nú á ég engan afa

    Pétur afi minn dó í morgun. Bestur og skemmtilegastur, diplómati fram í fingurgóma og ég sakna hans óendanlega mikið. meira um það síðar.

    Alls konar verkefni bíða en ungur maður er með spurningarnar klárar:

    1. Hættir blóðið að renna?

    2. Hættir hjartað að slá?

    3. Er heilinn ennþá?

  • Snemmbúinn sumardagurinn fyrsti

    Í dag kom sumarið mjög skyndilega og með látum. Það hefur verið ansi grátt undanfarið og ansi kalt. Blómin hafa setið saman fastast ofan í moldinni og laufin hafa bara nánast ekki hreyfst úr sporunum. Það hefur ísskápshiti undanfarið sem mér skilst að stafi af þaulsætinni lægð eða hæð einhvers staðar hérna nálægt okkur en nú um helgina losnaði um hana og lífið fékk á sig lit aftur.

    Við nýttum daginn og vorum mikið úti. Baldur hjólaði hér um allt og Una fór um hverfið á hlaupahjólinu sínu. Við vorum uppi í Hlíðaskóla að leika og ég fór út að hlaupa til að klára vikuskammtinn af kílómetrum. Við spiluðum á svölunum (ekki hægt að vera úti í garði vegna framkvæmdanna) og sleiktum sólina. Það var samt bara 8 stiga hiti en þvílíkar átta gráður!

    Um kvöldið fórum við niður á Hlíðarenda að fylgjast með Val í Evrópukeppninni. Það var hrikalega gaman, mikil stemning og Valsmenn taka með sér átta marka mun á leikinn sem verður í Rúmeníu um næstu helgi. Það var sumarleg stemning að labba heim í kvöld eftir leikinn, sólin skein og kvöldlognið var komið og hverfið var allt fullt af rauðklæddum Völsurum.

  • Afríka, Marokkó, Marrakesh

    Kristján er farinn til Marrakesh og verður þar næstu sex dagana á ráðstefnu Credit Info. Það er lítil hætta á því að hann kaupi alltof mikið á markaðnum því hann er bara með eina tösku og hún er ekki tékkuð inn í vélina.

    Við sem heima sitjum stefnum á að hafa það gott á meðan og svo hlökkum við til að fá hann aftur heim, með eða án Marokkó-glingurs.

  • Reality Bites

    Þórdís var að skrifa enskuritgerð um smásögu sem heitir Winona Forever. Ég fékk að lesa yfir og ritgerðin var svo fín að það þurfti bara að laga algjört smotterí. Smásöguna hafði ég aldrei lesið en ritgerðin færði mig í huganum til þess tíma þegar ég horfði reglulega á Reality Bites, þá snilldarkvikmynd, hlustaði á diskinn úr myndinni og dýrkaði og dáði Winonu Ryder.

    Ef ég man rétt var þetta fyrsta bíómyndin sem Ben Stiller leikstýrði og lék í. Gaman að því að hundrað árum síðar átti ég eftir að rekast á manninn sjálfan hér í Reykjavík, nánar tiltekið í Reykjavíkurmaraþoni, þegar hann var að taka upp Walter Mitty-myndina.

    Þegar Þórdís kemur heim í sumar er á dagskrá hjá okkur mægðum að horfa saman á þessa frábæru mynd.

  • Hjálparhellur

    Um daginn keypti ég nýja gólfmoppu sem er þeim töfrum gædd að sá sem skúrar þarf hvorki að dýfa hendi í kalt vatn, eða öllu heldur sjóðandi heitt, né að snerta blauta og skítuga moppuna með höndunum. Mér finnst óþægilegt að vera í gúmmíhönskum og finnst hundleiðinlegt að skúra, en með tilkomu þessarar græju má segja að það sé slegist um að skúra á heimilinu.

    Baldur tók sig til áðan og skúraði bæði stofu og eldhús. Og ekki nóg með það, þá ryksugaði hann gólfið áður og þvoði líka nokkra veggi með töframöppunni góðu.

    Una reyndi að fá að skúra líka en litli bróðir hennar tók það ekki í mál og hún varð hin súrasta. Með smá dekstri fékkst ungi skúringamaðurinn til að leyfa stóru systur líka.

  • Fyrsta lóa sumarsins

    Í norðangarranum í dag hjólaði ég fram á lóu, þá fyrstu sem ég sé á þessu vori.

    Greyið var að norpa niðri við tjörn, að leita skjóls aprílsókarkuldanum.

    Líklega var henni of kalt til að syngja fyrir mig.

  • 50 gráir skuggar

    Þessa dagana erum við að leita að flísum á gólfin niðri. Í dag og síðasta laugardag fórum við í nokkrar flísabúðir og fengum lánaðar prufur. Það er mikilvægt að sjá hvernig þær koma út í rýminu, til dæmis þarf að sjá hvernig flísarnar taka í sig birtu og ljós.

    Við fórum i þrjár flísabúsir samtals og fengum átta prufur. Notum svo útiokunaraðferðina og fáum vini og ættingja til að horfa á flísarnar með okkur og segja okkur hvað þeim finnst.

    Þetta er allt að koma hjá okkur og mér sýnist við vera að ná lendingu með flísarnar. Það eru tvær eftir í lokaumferðinni en önnur þeirra er á svo miklu hagstæðara verði að mér sýnist að hún eigi eftir að verða fyrir valinu. En svo eigum við reyndar eftir að fara í eina flísabúð til viðbótar, heyrðum af henni í gær svo kannski breytist valið eftir þá heimsókn.

    Á meðfylgandi mynd má sjá 50 gráa skugga. Þegar við fengum fyrstu flísaprufurnar, þá vissi ég ekkert um flísar, en núna veit ég sitthvað. Mér finnst þetta ekkert sérstaklega skemmtileg iðja, að velja flísar altsvo, en það er samt heldur ekkert leiðinlegt.

  • Úti að hjóla

    Baldur fékk nýja hjólið sitt og er hinn glaðasti með gripinn. Hann hjólar eins og vindurinn, fer circle og bremsar sjálfur eins og ekkert sé.

    Hjólið hefur beðið i geymslu hjá okkur í tvö ár en það kom upphaflega til Khawa í gengum Bland. Þegar Khawa óx upp úr hjólinu kom Erna með það til okkar, og þar sem hjólið er svo einstakt ákváðum við strax að geyma það þar til Baldur yrði nógu stór fyrir það.

    Hjólið er frá Tékkóslóvakíu, af gerðinni Venemos sem margir kannast við. Brettin eru krómuð, stýrið fer upp og hjólið er fallega blátt á litinn með bæði glitaugum og bjöllum. Það er eins og nýtt og heffur greinilega alltaf verið geymt inni því það er ekki ryðblettur á því.

  • Harðsperrur

    Í gær var laugardagsæfing í Afreki sem svo er kölluð og hún var afar erfið. Í dag erum við með agalega strengi og þeir verða ennþá verri á morgun, á degi tvö.

    Reikna með að á þriðjudaginn verði þeir enn verri, því þá verður uppsafnað frá laugardegi og sunnudegi. En mkið sem þetta er gaman, að fara í Afrek og hamast og svitna. Hlakka alltaf til tímanna.

  • Saga á bakvið mynd

    Myndin hér að ofan á sér sniðuga sögu. Við Kristján vorum á leið í covid-bólusetningu í Laugardalshöll og höfðum fengið innköllun á um það bil sama tíma og deildarmyrkri var sýnilegur á sólu. Við gerðum hins vegar engan veginn ráð fyrir að sjá sólmyrkvann því það var skýjað þennan dag og það gekk á með miklum skúrum.

    Þess vegna tókum við með okkur regnhlíf í bólusetninguna, reiknuðum ekki með að fá bílastæði nálægt og nenntum ekki að lenda í einni af þessum skúrum sem mundi ganga yfir okkur. Við höfðum rétt fyrir okkur varðandi bílastæðin og umferðina við höllina og lögðum við Íslandsbanka á Suðurlandsbrautinni. Þaðan er mjög þægilegt að ganga yfir Suðurlandsbrautina á ljósunum og þaðan í höllina.

    Nema hvað, sem við leggjum bílnum framan við Íslandsbanka opnast skyndilega skýjahulan á himninum, einmitt á þeirri stundu sem deildarmyrkvinn brestur á. Og á sama tíma og það gerist gengur Sævar Helgi Bragason út úr bankanum, haldandi á sólmyrkvagleraugum. Hann lánaði okkur gleraugun sín og smellti af þessari stórkskemmtilegu mynd.

    Þarna hefur staða himintunglana verið einstök! Allt þurfti að gerast á hárréttum tíma til að við sæjum sólmyrkvann þennan dag: himnarnir þurftu að opnast á sama tíma og sólmyrkvinn varð og við þurftum að vera með sólmyrkvagleraugun við höndina eða hitta einhvern sem var með slík gleraugu. Það má segja að bæði við og Sævar Helgi höfum verið á hárréttum stað á hárréttum tíma.

    Maðurinn sem er þarna vinstra megin á myndinni og stefnir hraðbyri inn í bankann hefur sennilega verið að fara að greiða reikningana sína, en hann gaf sér ekki tíma til að líta upp og sjá þetta magnaða náttúrufyrirbæri.

    Hér er fréttin birtist við.